
Jólahátíðin gengin í garð, allt mjög hefðbundið og ljúft. Jólasnjórinn setur fallegan svip á bæinn og er mjög jólalegt um að litast.

Á aðfangadag fór Bjarni í bæinn með krakkana að útdeila pökkum og kasta kveðju á fólkið sitt. Við vorum síðan öll mætt til mömmu og pabba ásamt Siggu sys rétt fyrir klukkan sex. Mamma var með humarsúpu og hamborgarahrygg og í eftirrétt var möndlugrautur með hindberjasósu. Pakkaflóðið í stofunni var þvílíkt og var Sigurbergur í því hlutverki að lesa á pakkana ásamt afa sínum.

Við fórum til Reykjavíkur um tíu leytið og vorum með tengdafjölskyldunni fram yfir miðnætti.
Á jóladag var messa kl. tvö og jólaboð hér heima kl. þrjú. Mamma og pabbi voru með boðið þetta árið fyrir Heiðartúnsfjölskylduna og ákváðum við að hafa það hér í Lágmóanum. Við vorum 43 í boðinu þetta árið, það eru svo margir í útlöndum þessi jól. Jólaboðið tókst mjög vel við dönsuðum öll í kringum stóra jólatréð því það var svo mikið pláss í stofunni. Svo kom jólasveinn í heimsókn og gaf krökkunum nammi poka. Síðustu gestirnir fóru þegar klukkan var langt gengin í tíu.




Annar í jólum var hefðbundinn, það var farið í jólagöngu. Þetta árið var gengið frá Fitjum í Njarðvík að Bláa Lóninu og síðan fór allur hópurinn í Lónið. Við vorum 15 sem gengum þessi jól. Veðrið var frábært eins og alltaf á annan í jólum. Dagurinn endaði svo í jólaboði í Reykjavík og við komum heim seint í gær.




Í dag ætlum við að borða soðna ýsu og kartöflur sem verður góð tilbreyting frá öllu kjötátinu.
Strax erum við farin að telja niður dagana til Gamlárskvölds.
