19. ágúst 2007

Tíminn með Marv , Dee og Hannah











  • Tíminn leið svo hratt á meðan fósturfjölskyldan var hér á landinu. Við byrjuðum fyrsta daginn á Reykjavík, spókuðum okkur um þar í frábæru veðri og enduðum á að borða á Tveimur fiskum um kvöldið.
Ég held að ég hafi sjaldan verið í bíl með manni sem talar jafn mikið og fósturfaðir minn Marvin. Hann stoppaði ekki allan tímann sem að við keyrðum um landið, sat fram í hjá mér og talaði út í eytt. Hann toppaði allar sögur sem voru sagðar,var alltaf með athugasemdir og pælingar en alls ekki á neikvæðan máta. Þetta var bara skemmtilegt en mjög óvanalegt fyrir mig þar sem við hjónin tölum ekki mikið þegar við keyrum um landið. Ég yfirleitt sofandi eða að lesa bók, ekki mjög skemmtilegur ferðafélagi.



3.ágúst

Fórum við hjónin og Sigurbergur með þau vestur á Snæfellsnes, byrjuðum á Stykkishólmi. Keyptum minjagripi, gengum upp höfðann og skoðuðum handverk. Slepptum bátasiglingu vegna veðurs. Næsta stopp var svo hjá Hildibrandi og co í Bjarnarhöfn. Þar er komið frábært safn og við smökkuðum hákarl og keyptum. Við vorum ekkert að flýta okkur þar og eyddum góðum tíma og tókum fullt af myndum.

Næsta stopp var Ingjaldshólskirkja þar sem langömmur og -afar mínir í báðar ættir hvíla. Ameríkönunum fannst það vera mjög sérstakt að sjá þennan gamla kirkjugarð með öllum forfeðrum mínum og ég gat sagt sögu þessa fólks. Mjög áhugavert.

Þarnæst var brunað vestur fyrir jökul og stoppað í Djúpalónssandi og þvílík umbreyting. Við vorum búin að vera í hávaðaroki norðan við jökul en núna skall á logn og sólin gægðist úr skýjunum. Ég hef oft komið niður á Djúpalónssand en aldrei séð eins stórar öldur þar og voru þennan dag. Þetta var alveg magnað og hafði mikil áhrif á gesti mína og vorum við þar dágóða stund, fengum okkur á harðfisk, hákarl og bjór.


Það er ekki hægt að fara hringinn án þess að renna niður á Arnarstapa og skoða bryggjuna og grjóthleðsluna af Snæfells Bárði. Þar tókum við myndir og hlógum af pari sem varð fyrir kríuárás og átti fótum sínum fjör að launa. Fyndið vegna þess að ég hef lent í þessu sama með Sigurberg 3.ja ára og ég hljóp og hljóp með nokkrar kríur á eftir mér og skildi krakkann eftir í miðju kríugeiranu. Þegar ég áttaði mig á því þá fékk ég svona panikhræðslukast sem varð að hláturskasti. Horfði svo á barnið sveifla sverðinu sínu að kríunum og reyna að komast óáreittur til móður sinnar. En það var akkúrat ekkert fyndið við þessa sjón. Frekar hallærislegt af ábyrgri móður.



Þegar komið var kvöld fórum við að Hótel Búðum þar sem eiginmaðurinn var búin að panta borð fyrir okkur öll. Þar beið okkar yndislegt kvöld, með góðum mat, góðum félagsskap í fallegu umhverfi. Gestunum mínum fannst þetta dýr máltíð, yfir 1.000 dollara, jafn mikið og erfiðsdrykkja fyrir 200 manns vegna andláts Marv´s eldri í sumar.

Laugardagurinn 4.ágúst.

Byrjaði daginn á að skutla Bryndísi og Söru í Þorlákshöfn. Þær fóru semsagt á Þjóðhátíð, við fjölskyldan vorum reyndar búin að ákveða að fara og rifja upp gamlar minningar af 1997,1998 og 1999. En þegar gestir koma frá Ameríku þá fer maður ekki á Þjóðhátíð.


Ég dreif mig síðan heim og ætlaði að lána Hönnuh Runóinn okkar en hún hafði aldrei keyrt eða lært á beinskiptan bíl. Í MN þá keyra flestir um á sjálfskiptum bílum. En ég ákvað að fara einn hring og kenna henni bara á bílinn. Þetta gekk ekki nógu vel, hefðum þurft aðeins meiri tíma. Hún fékk að keyra á jeppanum (sjálfskiptum) til að prófa rúntinn í Kefcity.

Við fórum í Arnarhól í sumarbústað mömmu og pabba þar sem að öll systkini mín voru stödd með maka og börn. Það kveiktum við varðeld, pabbi var brennukóngur og Ögmundur mætti með gítar. Við dreifðum blöðum til allra á svæðinu og tókum nokkur lög. Einsi frændi var með leiki fyrir börn og fullorðna og úr þessu varð hin besta skemmtun. Marv og Dee voru alveg heilluð og sátu brosandi út af eyrum og nutu hverrar mínútu með fjölskyldunni sem var bara í sínu besta formi þetta kvöld.

Nokkur óborganleg atvik gerðust þarna og ég fékk eitt hláturskastið. Einsi frændi á það til að vera mikið að fíflast með fólk. Í jólaboðinu sl. jól þá braut hann gleraugu og klippti bindi af bróður sínum. Allt í plati en fólk vissi það ekkert og var í sjokki (sumir). Ég var búin að segja gestunum frá þessu og þegar Dee hittir hann þá segir hún. I don´t have a tie haha so you can´t cut it. Þá horfir Einsi á hana og segir no, but I can do something else og glottir, because I am a Magician and I can make your bra disappear. Konu greyið (59.ára, frekar svona fín frú) horfir á hann og segir svo. Really,, how are you gonna do that alveg voða hissa. Einsi: frekar hneykslaður...it is a joke.

Dee varð svo um að hún gekk í burtu, í móann ( sem hún er ekki von að ganga um) varð eins og veltikerling sem heldur ekki jafnvægi og svo hló hún og hló. Alein og vissi ekkert í hvaða átt bústaðurinn okkar var. Þannig vafraði hún um í smástund, skellihlæjandi yfir þessum óborganlega manni sem gjörsamlega kvað hana í kútinn.