4.ágúst
Eftir frábæra stund í bústaðnum fórum við heim rétt eftir miðnætti. Allir mjög glaðir eftir daginn, Sigurbergur varð eftir hjá mömmu og pabba og var mjöög sáttur við það.
5.ágúst
Eina planið þennan dag var Bláa Lónið og kvöldmatur með fyrrum samstarfsmanni Marvins frá Delmonte og konunni hans Wes og Jill Smith. Yndælishjón sem búa í Californiu og eru komin á eftirlaun og nota tímann til að ferðast um heiminn. Við borðuðum á Hereford steikhús og áttum góða stund með þeim.
6.ágúst
Jökulsárlón, óvissuferð, ætluðum að gista en vorum ekki búin að gera neinar ráðstafanir. Stoppuðum við Seljalandsfoss og Hannah unglingurinn hélt ekki vatni yfir fegurð landsins. Þegar við komum að Kirkjubæjarklaustri þá voru öll hótelherbergi í nágrenninu upptekinn. Ég hringdi því í sumarhúsaleigu í Hörgslandi og þar fengum við sumarbústað með uppábúnum rúmum fyrir tæplega 15.þús krónur. Þau voru ánægð með þetta og ég líka, veðrið var yndislegt, aðstaðan frábær og landslagið fallegt.
Við komum að lóninu kl. 17:30 náðum næstsíðasta bátnum. Myndirnar úr siglingunni eru alveg magnaðar. Við sáum sel leika sér í lóninu og fengum okkur kakó með rommi og nutum þess að vera saman.
Sigurbergur Bjarnason er þægilegasta barn sem til er, hann var alsæll með dótið sitt, naut þess að vera með okkur og var ánægður ef einhver nenti að kasta til hans baseball bolta í smástund. Þess á milli var hann bara að dunda sér, lesa, horfa á mynd og spjalla.
7.ágúst
Við tímdum ekki að fara heim úr góða veðrinu í rigninguna í Reykjavík. Ég fór því út að hlaupa um morguninn og þau voru bara í rólegheitum að drekka kaffi á pallinum og njóta stundarinnar.
Við lögðum ekki af stað fyrr en eftir hádegi. Stoppuðum á heimleiðinni við Skógarfoss og svo í Reynisfjöru sem ég hafði aldrei komið áður og var þar fallegasta stuðlaberg sem ég hef séð. Við stoppuðum þar í dágóða stund og hefðum getað verið þar mikið lengur.
Þegar heim kom beið Bjarni með mat handa okkur, fisk og hvítvín og þar með var dagurinn fullkominn.
8.ágúst
Lánaði hjónunum bílinn svo þau gætu farið í verslunarleiðangur í Reykjavík. Fór með mömmu í geislana, heimsótti tengdapabba og svo eldaði ég fiskisúpu um kvöldið, mamma, pabbi og Sigga komu í mat. Þetta var síðasta kvöldið í þessari Íslandsheimsókn.
9.ágúst
Hannah fór í Bláa Lónið, tókum einn hring á Reykjanesið, skoðuðum Stóru Sandvík, brúnna milli heimsálfanna og fengum okkur kaffi í Lóninu.
Skutlaði þeim uppá völl og stóð á öndinni þegar ég var að kveðja þau. Gat ekkert sagt, hvorki takk eða bæ. Ég vona að ég fari til þeirra eftir tvö ár eða sumarið 2009. Það er allavega áætlað.