28. ágúst 2007

Dagurinn í gær


Kom Sigurbergi af stað í skólann, las öll blöðin, skokkaði hringinn góða, fór í Bónus, heimsótti afa gamla, pantaði tíma í klippingu, sló blettinn hjá mömmu og pabba, tók á móti Norðmönnum sem verða hér í eina viku. Hanna kíkti við með skiptinemann sinn, dreng frá Ítalíu.

26. ágúst 2007

Afmæli Dóra

Matarklúbburinn skemmti sér mjög vel.



Vorum í glæsilegri veislu hjá vini okkar Dóra Páls í gær.



25. ágúst 2007

Friendtex listinn er að koma í hús.

Var á fundi í morgun vegna nýja Friendtex listans. Hann er mjög flottur í ár, stílhrein föt og klassísk. Hlakka mikið til að selja. Verð með opið hús á laugardögum í vetur og kynningar þess á milli.

24. ágúst 2007

Fyrir og eftir myndir

Breytingar á Lágmóa 2




Gervigrasvöllur, nýja stéttin og Norðfjörður.

Hlaupaleiðin mynduð



Hlaupið kringum Þorbjörn

Hljóp í morgun og myndaði hlaupaleiðina, þessi leið hefur alveg ótrúlegt aðdráttarafl. Ég miða alltaf við að vera skemur en 40.mín. Hún er ekki það löng og svo þarf að ganga í skriðunum.
Bjarni féll fyrir þessum hring þegar við fluttum hingað fyrir tveimur árum. Mér fannst algjör óþarfi að vera að keyra langa leið til að fara út að hlaupa en ég skil hann vel núna. Svo er toppurinn að fara í Bláa lónið í gufurnar og slaka á í volgu vatninu innan um alla ferðamennina.








23. ágúst 2007

Dagurinn í dag

Byrjaði daginn á að koma Sigurbergi í skólann. Hljóp hringinn í kring um fjallið Þorbjörn. Las öll dagblöðin. Setti í þrjár vélar, tók til í bílskúrnum, nú kemst fellihýsið fyrir. Baldur og Sólveig María komu í heimsókn og fengum við okkur snarl í hádeginu. Sló blettinn, bjó til fiskibollur úr 5 kg af þorski frá pabba. Var með gamla uppskrift en átti ekki kartöflumjöl, svo að ég bjó bara til nýja uppskrift og heppnaðist hún vel...
Hakkaði fiskinn og 2 lauka, 2- 3 bollar hveiti, salt, brauðrasp, sítrónupipar og smá mjólk. Steikt á pönnu uppúr smjöri og smjörlíki. Setti svo í eldfast mót inn í ofninn í 20 mín. Bjó til brúna sósu og sauð kartöflur.

Brynja borðaðið kvöldmat með okkur Sigurbergi en Bryndís var að keppa í knattspyrnu.
Við mamma kíktum svo í kvöldkaffi til frænku og þar með var dagurinn búinn.

Sigurbergur og Einar skemmtu sér á leiknum


Myndin er tekin á leik Ísland - Canada sem lauk 1-1. Ágætis skemmtun. Það besta var að hafa boðið Einari með á leikinn. Hann skemmti sér vel með frænda sínum, þeir voru vel merktir og fóru meira að segja yfir til stuðgrúppunnar sem var vinstra megin í stúkunni.

Í hálfleik fór ég með þá frændur upp í veitingarnar, ég var semsagt með boðsmiða. Nema hvað þegar við komum inn þá segi ég strákunum að fá sér það sem þá langar í. Vísa þeim á gosið og svo hvar muffins og kleinurnar eru. Einar ljómaði allur í framan og spurði hvort þetta væri frítt. Hann var aldeilis hissa drengurinn. Þetta var toppurinn á kvöldinu, það sagði hann mér þegar leiknum lauk og við vorum að fara heim. Honum fannst við svo ótrúlega heppinn að fá frítt gos og muffins.

22. ágúst 2007

Krakkarnir byrjuð í skólanum

Í morgun mættu krakkarnir í skólann, Sigurbergur í 3.bekk Njarðvíkurskóla og systurnar í FS.
Ég bíð eftir að ágústmánuður líði ég þarf ekki að mæta fyrr en 4.september.
Leikur hjá landsliðinu í kvöld gegn Canada. Fer með Sigurberg á leikinn.

Þarf að hlaupa einn hring í kvöld, fór ekkert í gær.

20. ágúst 2007

Bláber á Þingvöllum



Við mamma fórum með Sigurberg og Sindra Snæ í berjamó. Ég hef aldrei á ævi minni séð eins mikið af berjum og lent í öðru eins. Við týndum nokkur á kíló af bláberjum á tveimur klukkutímum. Strákunum fannst þetta meira að segja mjög gaman.
Ég er búin að sulta og frysta nokkra poka til að eiga í vetur. Mig langar að fara aftur og týna meira, þetta var svo gaman.
Læt fylgja nokkar myndir með.

19. ágúst 2007

Ljósanótt nálgast : )

Súpa fyrir vini og vandamenn á Ljósanótt, við mamma erum svoddan menningar-ljósanæturkonur og langar að bjóða uppá súpu. Fiski-humarsúpa með litlu grænmeti eins og Siggi bað vinsamlega um : )

Ég hef eitthvað klikkað á síðustu súpusoðningum og skellt of miklu af grænmeti í og fólk fann ekki neinn fisk. Það gengur að sjálfsögðu ekki.
Mánudaginn eftir Ljósanótt tekur svo alvaran við og skólinn byrjar. Mikið verður það sérstakt að setjast aftur á skólabekk eftir 10.ár á vinnumarkaðnum.

Afmælisveislur í sumar

17.júli var okkur boðið í afmæli til Halldórs Gísla frænda Bjarna það var skemmtileg kvöldstund í yndislegu veðri og góðum félagsskap. Þetta var þriðja stórafmælið sem við förum í þetta sumar. Hin tvö eru fertugsafmæli Jóns Ellerts Tryggvasonar sem haldið var í Elliðaárdalnum með stæl og fimmtugsafmæli Bjarna Valtýssonar sem var haldið í Rangársveit, alveg meiriháttar skemmtileg veisla.

Menningarnótt












  • Sjóstöng á Reykjanesinu á Bárunni í sól og blíðu sáum hval, súlur og skarfa. Pabbi fór með tvö holl, fyrst Baldur og Ögmund og þeirra börn. Síðan mig, mömmu, Hleiðar, Sindra Snæ og Sigurberg.




Ég, mamma, Bryndís, Sigurbergur og Sindri Snær fórum saman á
Menningarnótt. Byrjuðum á Listasafni Einars Jónssonar, Skólavörðustígurinn með samlokum og svala, Arnarhóll og tískusýning, Ingólfstorg og danskennsla frá Skotlandi, Ráðhúsið með færeyskum dönsum, til baka á Miklatún og svo flugeldasýning þar sem við fórum á bílnum niður í Borgartún og röltum niður að strönd.
Frábær dagur og strákarnir svo skemmtilegir, þó maður sé bara 8.ára þá fer maður úr íþróttajakkanum á Miklatúni og í gráa hettupeysu eins og stóru strákarnir. Ótrúlega fyndið, kom mömmu sinni gjörsamlega á óvart. haha

Manchester 10-13.ágúst











  • Fjölskyldan að fara í sumarfrí saman, síðast fórum við 1996 þegar Bjarni var í fríi frá boltanum. Hef alltaf farið ein með börnin og ásamt vinum og vandamönnum.


    10.ágúst


    Flogið til Manchester 17:30, komin á hótelið frekar seint, gengum einn hring niður í miðbæ og fengum okkur svo snarl á hótelinu.


    11.ágúst
    Vöknuðum í morgunmat og fórum með stelpunum í verslunarleiðangur. Sigurbergur fékk flotta skó með litlum hjólum undir og vakti mikla athygli þar sem hann renndi sér um á þessum fínu skóm.


Skildum stelpurnar eftir í búðunum og fórum í parísarútsýnishjól, varð smá lofthrædd og fannst þetta ekkert sérlega spennandi. Gaman að sjá yfir borgina en einn hringur hefði dugað mér, þeir urðu fimm.


Fór með Sigurberg á vísindasafnið til að brjóta upp daginn fyrir hann, hefði ekki enst lengi á kaffihúsum að skoða mannlífið. Við tvö skemmtum okkur mjög vel og hefðum getað verið lengur.
Hittum stelpurnar rétt áður en búðum lokaði fórum upp á hótel og ákváðum að borða á Tælenskum veitingastað um kvöldið.



12.águst (Game Day) (Fæðingardagur Sibbu-hefði orðið 70.ára)
Manchester - Reading kl. 16:00
Fórum seint á fætur, fengum okkur morgunmat seint og fórum svo á Old Trafford. Byrjuðum að fara í búðina og keyptum okkur boli og eitthvað drasl. Síðan vöfruðum við um svæðið og hittum frábæran karl (breta) sem er mikill aðdáandi rauðu djöflanna, búinn að vera fastagestur á leikjum í fimmtíu ár. Var með sérsmíðað úr sem minnti á United og svo toppaði allt þegar hann sagði mér stoltur frá því að hann bauð konunni sinni út að borða og í yfirlitsferð um Old Trafford í tilefni 70.ára afmælis hennar. Konan hafði aldrei á ævi sinni farið á fótboltaleik fyrr en þann dag. Þetta var yndislegur karl og hefur örugglega átt góðan dag á afmælisdegi konunnar. haha.
Leikurinn var ekkert sérstakur, en það var frábært að koma á völlinn innan um 76.500 manns. Ég fílaði mig alveg í botn og fannst þetta mjög gaman.



Erfiðlega gekk að fá leigubíl heim og fjölskyldumeðlimir urðu voða tens yfir því ástandi. En það hafðist að lokum og við komumst á hótelið fyrir rest.

13.ágúst (Ögmundur afmæli-37.ára)


Fjölskyldan svaf út (nema ég) Brynja fór að skipta buxum sem voru of stórar og kom svo klukkutíma síðar. Ég, Bryndís og Sigurbergur gengum einn hring í Kínahverfið áður en við fórum á Old Trafford til að fara í leiðsögn um leikvanginn.
Leiðsögnin um svæðið var frábær, gaman að sjá alla staði þar sem þessir kappar eru að athafna sig. Hélt að mér myndi ekki fynnast þetta neitt áhugavert, en raunin varð önnur. Mér fannst þetta bara rosalega gaman og á örugglega eftir að fylgjast meira með liðinu eftir þessa ferð.

Við fórum svo í verslunarmiðstöð, stelpurnar þurftu að brenna aðeins meira af peningum. Við hjónin ráfuðum bara um með Sigurberg og létum okkur leiðast.
Fórum á hótelið til að sækja töskurnar okkar, Bryndís afrekaði það að týna miðunum af töskunum en ég með minni alkunnu ljúfmennsku fékk þær afhentar.

Sigga sys sótti okkur á flugvöllinn og við vorum komin í rúmin okkar fyrir kl. eitt um nóttina.

Ferðasaga-part 2 Marvin og Diana

4.ágúst

Eftir frábæra stund í bústaðnum fórum við heim rétt eftir miðnætti. Allir mjög glaðir eftir daginn, Sigurbergur varð eftir hjá mömmu og pabba og var mjöög sáttur við það.

5.ágúst

Eina planið þennan dag var Bláa Lónið og kvöldmatur með fyrrum samstarfsmanni Marvins frá Delmonte og konunni hans Wes og Jill Smith. Yndælishjón sem búa í Californiu og eru komin á eftirlaun og nota tímann til að ferðast um heiminn. Við borðuðum á Hereford steikhús og áttum góða stund með þeim.

6.ágúst

Jökulsárlón, óvissuferð, ætluðum að gista en vorum ekki búin að gera neinar ráðstafanir. Stoppuðum við Seljalandsfoss og Hannah unglingurinn hélt ekki vatni yfir fegurð landsins. Þegar við komum að Kirkjubæjarklaustri þá voru öll hótelherbergi í nágrenninu upptekinn. Ég hringdi því í sumarhúsaleigu í Hörgslandi og þar fengum við sumarbústað með uppábúnum rúmum fyrir tæplega 15.þús krónur. Þau voru ánægð með þetta og ég líka, veðrið var yndislegt, aðstaðan frábær og landslagið fallegt.
Við komum að lóninu kl. 17:30 náðum næstsíðasta bátnum. Myndirnar úr siglingunni eru alveg magnaðar. Við sáum sel leika sér í lóninu og fengum okkur kakó með rommi og nutum þess að vera saman.

Sigurbergur Bjarnason er þægilegasta barn sem til er, hann var alsæll með dótið sitt, naut þess að vera með okkur og var ánægður ef einhver nenti að kasta til hans baseball bolta í smástund. Þess á milli var hann bara að dunda sér, lesa, horfa á mynd og spjalla.

7.ágúst

Við tímdum ekki að fara heim úr góða veðrinu í rigninguna í Reykjavík. Ég fór því út að hlaupa um morguninn og þau voru bara í rólegheitum að drekka kaffi á pallinum og njóta stundarinnar.
Við lögðum ekki af stað fyrr en eftir hádegi. Stoppuðum á heimleiðinni við Skógarfoss og svo í Reynisfjöru sem ég hafði aldrei komið áður og var þar fallegasta stuðlaberg sem ég hef séð. Við stoppuðum þar í dágóða stund og hefðum getað verið þar mikið lengur.
Þegar heim kom beið Bjarni með mat handa okkur, fisk og hvítvín og þar með var dagurinn fullkominn.

8.ágúst

Lánaði hjónunum bílinn svo þau gætu farið í verslunarleiðangur í Reykjavík. Fór með mömmu í geislana, heimsótti tengdapabba og svo eldaði ég fiskisúpu um kvöldið, mamma, pabbi og Sigga komu í mat. Þetta var síðasta kvöldið í þessari Íslandsheimsókn.
9.ágúst
Hannah fór í Bláa Lónið, tókum einn hring á Reykjanesið, skoðuðum Stóru Sandvík, brúnna milli heimsálfanna og fengum okkur kaffi í Lóninu.
Skutlaði þeim uppá völl og stóð á öndinni þegar ég var að kveðja þau. Gat ekkert sagt, hvorki takk eða bæ. Ég vona að ég fari til þeirra eftir tvö ár eða sumarið 2009. Það er allavega áætlað.

Tíminn með Marv , Dee og Hannah











  • Tíminn leið svo hratt á meðan fósturfjölskyldan var hér á landinu. Við byrjuðum fyrsta daginn á Reykjavík, spókuðum okkur um þar í frábæru veðri og enduðum á að borða á Tveimur fiskum um kvöldið.
Ég held að ég hafi sjaldan verið í bíl með manni sem talar jafn mikið og fósturfaðir minn Marvin. Hann stoppaði ekki allan tímann sem að við keyrðum um landið, sat fram í hjá mér og talaði út í eytt. Hann toppaði allar sögur sem voru sagðar,var alltaf með athugasemdir og pælingar en alls ekki á neikvæðan máta. Þetta var bara skemmtilegt en mjög óvanalegt fyrir mig þar sem við hjónin tölum ekki mikið þegar við keyrum um landið. Ég yfirleitt sofandi eða að lesa bók, ekki mjög skemmtilegur ferðafélagi.



3.ágúst

Fórum við hjónin og Sigurbergur með þau vestur á Snæfellsnes, byrjuðum á Stykkishólmi. Keyptum minjagripi, gengum upp höfðann og skoðuðum handverk. Slepptum bátasiglingu vegna veðurs. Næsta stopp var svo hjá Hildibrandi og co í Bjarnarhöfn. Þar er komið frábært safn og við smökkuðum hákarl og keyptum. Við vorum ekkert að flýta okkur þar og eyddum góðum tíma og tókum fullt af myndum.

Næsta stopp var Ingjaldshólskirkja þar sem langömmur og -afar mínir í báðar ættir hvíla. Ameríkönunum fannst það vera mjög sérstakt að sjá þennan gamla kirkjugarð með öllum forfeðrum mínum og ég gat sagt sögu þessa fólks. Mjög áhugavert.

Þarnæst var brunað vestur fyrir jökul og stoppað í Djúpalónssandi og þvílík umbreyting. Við vorum búin að vera í hávaðaroki norðan við jökul en núna skall á logn og sólin gægðist úr skýjunum. Ég hef oft komið niður á Djúpalónssand en aldrei séð eins stórar öldur þar og voru þennan dag. Þetta var alveg magnað og hafði mikil áhrif á gesti mína og vorum við þar dágóða stund, fengum okkur á harðfisk, hákarl og bjór.


Það er ekki hægt að fara hringinn án þess að renna niður á Arnarstapa og skoða bryggjuna og grjóthleðsluna af Snæfells Bárði. Þar tókum við myndir og hlógum af pari sem varð fyrir kríuárás og átti fótum sínum fjör að launa. Fyndið vegna þess að ég hef lent í þessu sama með Sigurberg 3.ja ára og ég hljóp og hljóp með nokkrar kríur á eftir mér og skildi krakkann eftir í miðju kríugeiranu. Þegar ég áttaði mig á því þá fékk ég svona panikhræðslukast sem varð að hláturskasti. Horfði svo á barnið sveifla sverðinu sínu að kríunum og reyna að komast óáreittur til móður sinnar. En það var akkúrat ekkert fyndið við þessa sjón. Frekar hallærislegt af ábyrgri móður.



Þegar komið var kvöld fórum við að Hótel Búðum þar sem eiginmaðurinn var búin að panta borð fyrir okkur öll. Þar beið okkar yndislegt kvöld, með góðum mat, góðum félagsskap í fallegu umhverfi. Gestunum mínum fannst þetta dýr máltíð, yfir 1.000 dollara, jafn mikið og erfiðsdrykkja fyrir 200 manns vegna andláts Marv´s eldri í sumar.

Laugardagurinn 4.ágúst.

Byrjaði daginn á að skutla Bryndísi og Söru í Þorlákshöfn. Þær fóru semsagt á Þjóðhátíð, við fjölskyldan vorum reyndar búin að ákveða að fara og rifja upp gamlar minningar af 1997,1998 og 1999. En þegar gestir koma frá Ameríku þá fer maður ekki á Þjóðhátíð.


Ég dreif mig síðan heim og ætlaði að lána Hönnuh Runóinn okkar en hún hafði aldrei keyrt eða lært á beinskiptan bíl. Í MN þá keyra flestir um á sjálfskiptum bílum. En ég ákvað að fara einn hring og kenna henni bara á bílinn. Þetta gekk ekki nógu vel, hefðum þurft aðeins meiri tíma. Hún fékk að keyra á jeppanum (sjálfskiptum) til að prófa rúntinn í Kefcity.

Við fórum í Arnarhól í sumarbústað mömmu og pabba þar sem að öll systkini mín voru stödd með maka og börn. Það kveiktum við varðeld, pabbi var brennukóngur og Ögmundur mætti með gítar. Við dreifðum blöðum til allra á svæðinu og tókum nokkur lög. Einsi frændi var með leiki fyrir börn og fullorðna og úr þessu varð hin besta skemmtun. Marv og Dee voru alveg heilluð og sátu brosandi út af eyrum og nutu hverrar mínútu með fjölskyldunni sem var bara í sínu besta formi þetta kvöld.

Nokkur óborganleg atvik gerðust þarna og ég fékk eitt hláturskastið. Einsi frændi á það til að vera mikið að fíflast með fólk. Í jólaboðinu sl. jól þá braut hann gleraugu og klippti bindi af bróður sínum. Allt í plati en fólk vissi það ekkert og var í sjokki (sumir). Ég var búin að segja gestunum frá þessu og þegar Dee hittir hann þá segir hún. I don´t have a tie haha so you can´t cut it. Þá horfir Einsi á hana og segir no, but I can do something else og glottir, because I am a Magician and I can make your bra disappear. Konu greyið (59.ára, frekar svona fín frú) horfir á hann og segir svo. Really,, how are you gonna do that alveg voða hissa. Einsi: frekar hneykslaður...it is a joke.

Dee varð svo um að hún gekk í burtu, í móann ( sem hún er ekki von að ganga um) varð eins og veltikerling sem heldur ekki jafnvægi og svo hló hún og hló. Alein og vissi ekkert í hvaða átt bústaðurinn okkar var. Þannig vafraði hún um í smástund, skellihlæjandi yfir þessum óborganlega manni sem gjörsamlega kvað hana í kútinn.








1. ágúst 2007

Marvin og Diana koma í dag

Marvin, Diana og Hanna koma í dag. Það hefur orðið 16 klst seinkun á vélinni. Síðast þegar að þau voru hér þá komust þau ekki heim fyrr en næsta dag vegna yfirbókunnar. Hvað ætli þeim fynnist um flugfélagið eftir þessa reynlsu.


Ætla að hlaupa nokkra km núna um leið og ég skutla Brynju í vinnuna.

kv Inga

Sigurbergur, Gunnar og Mikael á Forsætis hátíðinni