14. október 2007

Tónleikar og landsleikur

Gunnhildur Halla Baldursdóttir organistinn í kirkjunni okkar hélt tónleika sl. föstudag. Hún spilaði 3.verk á orgelið og síðan söng hún við undirleik Julians eiginmanns síns. Hún er frábær söngkona og var æðislegt að heyra hana syngja. Kirkjukórinn söng tvö lög og gekk það vel.
Svo var landsleikur í gær Ísland-Lettland, við fórum sex saman á völlinn. Svekkjandi að Ísland skyldi ekki ná að gera betur, þeir voru mjög góðir í seinni hálfleik en vantaði herslumuninn.
Annars voru örfáir íslenskir áhorfendur dónalegir við Lettneska áhorfendur og var leiðinlegt að horfa upp á það. Lettarnir voru með stóran fána sem að skyggði stundum á og fór það í taugarnar á sumum (enda þá var staðan orðin 1-4). Starfsmenn vallarins voru viðbúnir öllu í leikslok ásamt lögreglunni og var allt stoppað í fæðingu.
Annars er helgin búin að vera mjög fín, afmælisboð á föstudaginn, matarboð í gær, vinkonubrunch í dag og afmæli á Rekagrandanum eftir hádegi. Við mæðginin kíktum í Kolaportið og keyptum okkur bækur og röltum um. Hittum engan sem við þekktum, sem er frekar óvanalegt. Systurnar voru að vinna í Bláa Lóninu þessa helgi og misstu því af öllum veisluhöldunum sem og húsbóndinn sem er í sinni vinnu.

12. október 2007

Of vel gefin til að fá mér hund!!!

Stelpurnar komu með skilaboð til mín frá tengdapabba að ég væri of vel gefin til að fá mér hund, honum líkar ekki við hunda.
Ég veit ekki hvað margir eru búnir að koma með rök gegn því að ég ætti að kaupa hundinn. Stór hundur, stór kúkur voru ein rökin. Hvar á hann að vera þegar þið eruð ekki heima? Hver á að fara með hundinn út? Kostar mikla peninga! Tími til að fara á námskeið með hundinn! Allir á heimilinu verða búnir að missa áhugann eftir 2.vikur! Lendir allt á þér! Stéttinn verður slímug og grasið verður ...! o.s.frv.
En ástæðan fyrir því að ég ætla ekki að kaupa hundinn er að húsbóndinn vill ekki hund. Ekki er grundvöllur fyrir því að koma með hund á heimilið sem verður svo stór og fyrirferðarmikill í óþökk annarra sem búa á heimilinu.
Við Sigurbergur leysum málið þannig að við fáum Glóa labradorhund sem er í fjölskyldunni og förum með hann út að ganga og pössum hann þegar þau fara í frí. Það verður að duga í bili.

Ég held að mig langi ekki nógu mikið í hund til að vera að rökstyðja það að eiga hundinn við allt þetta fólk sem stendur mér næst og er mjööööög svo neikvætt.
Áhrifagjörn...já.

Viðtal við Sigur Rós í útvarpi : - )

Ég er búin að horfa á þetta viðtal og langt síðan ég hef hlegið eins mikið. http://www.npr.org/blogs/bryantpark/2007/10/when_good_interviews_go_bad.html
Ég hef haft fylgst með hljómsveitinni frá því að ég var að vinna með Jónsa á Reykjalundi. Þá voru þeir að byrja að spila saman drengirnir (1993 eða 1994). Jónsi var reyndar alltaf að mála eða teikna. Ég hugsaði að gaman væri að eiga mynd eftir hann, hann yrði örugglega einhverntímann frægur listmálari.

Ég held að þeir hafi nú bara svarað eins vel og þeir gátu miðað við spurningarnar sem þeir fengu. Þetta finnst mér fyndið.

10. október 2007

Mæðgur búnar að kaupa slátur

Við mæðgur keyptum 9 slátur í dag. Við keyptum Lúxus kassa með saumuðum vömbum. Við erum alsælar með að sjá fram á að ljúka við sláturgerðina á morgun. Um helgina verður sannkölluð sviða og slátur veisla, díllinn með slátrið er að mamma eldar alltaf heima hjá sér og við mætum í slátur. Fínasta fyrirkomulag, það bragðast eitthvað öðruvísi hjá mömmu en hjá okkur, þó við séum með sama slátrið.
Var næstum búin að kaupa miða á Megas tónleikana sem verða á laugardaginn, hætti við því að ég er að fara í próf á þriðjudaginn. Þarf aðeins að lesa yfir efnið einu sinni enn.
Verð með opið hús á laugardaginn kl.13-15 fyrir Friendtex.

9. október 2007

Að vera tvíburi og þurfa að deila ýmsu

Á maður að vorkenna þeim fyrir að vera tvíburar? Þær fengu bílinn sinn í dag. Önnur keyrði heim úr bænum og svo tók hin bílinn og fór á rúntinn með sínum vinkonum og skyldi systir sína eftir heima frá hádegi að kvöldmat. Af hverju geta þær ekki farið saman á rúntinn fyrsta daginn með nýja bílinn sinn.
Þetta verður skrautlegt en ég ætla að passa mig á að vera ekki að skipta mér af þeim. Ég verð bara að láta þær um þetta.
En bíllin er svakalega flottur.
Ég er svo að spá hvað þær hafa þurft að deila með sér í gegnum árin... þær hafa aldrei átt neitt saman nema köttinn. Þær fengu alltaf sitthvort hjólið, rúmið, herbergið, sjónvörp o.s.frv.aldrei neina sameiginlega gjöf.
Það reynir því á núna að þurfa að deila með sér heilum bíl. Vinkonur mínar sem eru tvíburar áttu saman bíl á unglingsárunum og það var ekkert vandamál.

Látum á þetta reyna.. ; - )

8. október 2007

Bryndís vann til verðlauna


Myndir af vf.is eftir bikarleikinn og systur að faðmast : = )



Bryndís kom heim með 4 bikara og eina viðurkenningu eftir lokahóf Keflavíkur. Hún var valin besti félaginn og fékk líka fyrir mestu framfarirnar eða efnilegust í 2.flokki. Við erum ekki viss því að það stendur sitthvað á bikurunum.
Þeim systrum fannst voða fyndið að trommusveitin skyldi nefna pabba þeirra í þakkarræðu á lokahófinu þar sem honum var þakkað fyrir að eiga svona myndarlegar stelpur - eða eitthvað í þá áttina.
Brynja er loksins farin að geta æft af einhverju viti eftir krossbandaslit haustið 2005. Vonandi geta þær spilað saman í Meistaraflokknum næsta sumar.




Menningarhelgi : - ) og nýr bíll handa Tvíbbunum.

Helgin byrjaði á tónleikaferð með mömmu, pabba og Siggu systir. Fórum á afmælistónleika í íþróttahúsinu í Keflavík. Þar var Sinfóníuhljómsveit Íslands að spila, ásamt eldri lúðrasveit tónlistarskólans, Karlakór Keflaíkur söng og einnig Davíð Ólafsson sem var stórkostlegur.
Ég þekkti fullt af andlitum í Sinfóníuhljómsveitinni síðan ég var á námskeiðum með Sinfóníuhljómsveit Æskunnar fyrir 20 árum (vá hvað er langt síðan). Gaman að sjá hvað margir úr þeim hópi eru orðnir atvinnuspilarar.


Saumaklúbburin skellti sér á Þingvelli í gær í sumarbústaðaferð og áttum góðar stundir, borða, ganga, lesa, prjóna, spila, lita, baða, borða, drekka... mjög flott ferð hjá okkur. 100% mæting. Ég fór snemma heim til að syngja með kirkjukórnum í fjölskyldumessu og skírn. Síðan fór ég út að hjóla, tók til á heimilinu(meira að segja inni hjá systrunum) og las nokkrar greinar. Helgina endaði ég svo í Grafarvogskirkju á tónleikum með Gilles Apap fiðluleikara. Þetta voru magnaðir tónleikar til styrktar UNIFEM. Gilles fór á kostum með fiðluna sem og Hjörleifur Valsson ásamt Íslensku kammersveitinni og Bardukha.

Bjarni og börnin eru búin að vera fyrir austan hjá tengdapabba alla helgina og koma heim í fyrramálið. Þá tekur við landsleikjatörn í vikunni og leikur við Lettland á laugardaginn.
Það er alltaf nóg að gera á þessum bæ, ekki hægt að segja annað.
Stelpurnar fá svo bílinn sinn á morgun, stór dagur hjá þeim. Þær völdu sér rauða Hondu Jazz.