17. mars 2006

Barnaafmæli

Ég hef oft sagt mína skoðun á barnaafmælum á veitingastöðum. Ég vona það að Sigurbergur eigi ekki eftir að biðja um að fá að halda afmælið sitt á veitingastað. Mér finnst það svo sorglegt fyrirbæri. Stelpurnar héldu öll sín afmæli heima og voru ekki einu sinni með videospólu heldur leiki, leikrit, þrauti og margt skemmtilegt. Mig minnir að þær hafi horft á spólu með afmælisgestum þegar þær voru 12 eða 13.ára.
Leikir sem að ég man eftir eru; pakkaleikur, lakkrísleikur, flöskustút, ein króna, fallin spýtann, þrautakóngur. Nú í dag hefur svo sing star bæst við. Svo voru þær oftast með eitthvað þema í afmælunum. Einhverntíma höfðu þær náttfatapartý, sixtees partý, draugapartý þar sem allir mættu í draugafötum og þær buðu uppá allskonar nammi og mat tengt draugaþemanu.
Núna er Sigurbergur orðin 7.ára og síðan hann var 4.ára er hann búin að vera með 3 skemmtileg afmæli. Hann vill alltaf að strákarnir komi í grímubúningum. Hann hefur ákveðnar skoðanir á hvernig afmælið á að vera og síðast vildi hann bjóða upp á pylsur, nammiköku, íspinna og svo var hann búin að skipuleggja leiki. Amælið heppnaðist mjög vel.