31. janúar 2003

Viðbót við tæknikynningu, ég mun síðar taka þetta saman í eitt skjal.
Eins og fram kom í kynningunni að neðan þá er ein tölva hér á heimilinu og eru allir fjölskyldumeðlimir tölvunotendur. Ég og maðurinn minn notum forrit til að undirbúa kennslu og fyrirlestra, powerpoint og word. Við kennum við sama skóla og þar er einnig fínn aðgangur að tölvum og vinnum við einnig mikið þar.
Tvíburarnir nota tölvuna töluvert við að vinna verkefni fyrir skólann og síðan eiga þær sín svæði í tölvunni þar sem þær hafa unnið ýmislegt sem að þær geyma má þar nefna ljóð, sögur og fleira.
Þær nota tölvuna þegar þær þurfa, þær fara á netið og kunna ýmislegt. Stubburinn á bænum á nokkra tölvubarnaleiki sem hann er reyndar ekkert spenntur fyrir þessa dagana. Það eina sem kemst að hjá honum er að vera Superman, Spiderman, Harry Potter eða Bósi Ljósár. Það er leiksýning hér á hverjum degi.
Já ....gemsanotkun hjá þessari fjölskyldu er með því fáránlegasta sem gerist, við erum fimm í fjölskyldunni og eigum sex símanúmer; heimasíma, húsbóndinn með tvö númer og tvo síma, ég með eitt númer og stelpurnar með sitthvort númerið og að sjálfsögðu sitthvorn símann. Þetta er nú bara fyndið. Hvað ætli Sigurbergur verði gamall þegar hann fær sinn einkasíma?
Ég ætlaði mér sko aldrei að fá mér svona tilbúna þörf (farsíma), eins og rafmagnsdósaoppnararnir sem er fáránlegasta uppgötvun allra tíma. En að sjálfsögðu á ég líka rafmagnsdósaopnara og nota hann mikið.
Ég reyndar er yfirleitt með símann á silent og nota hann oft sem fjarstýringu á börnin mín. Svona er bara nútímasamfélag. Þetta má vera tilbúin þörf en guð minn góður hvað hún er frábær. Þegar báðir foreldrar vinna úti og börnin eru í tómstundastarfi út um allan bæ.
Til gaman má geta að núna um jólin þá voru um 30 börn og fullorðnir húsinu og 18 símar. Það var mikið hlegið að þessu, fólk leggur símanna ekki einu sinni frá sér á jólunum.
Ég var að kaupa mér heimabíó, DVD og sjónvarpstæki og mikið er gaman að leika sér að þeim græjum. Ég þarf reyndar að læra aðeins betur á þá fjarstýringuna og stillingarnar en þetta kemur, nema hægt sé að skemma þetta.
Framtíðin:
Ég er engin spákona, þróunin er búin að vera svo hröð sl. ár á þessu tæknisvið að maður heldur alltaf að toppnum sé náð og bráðum fari allir að skrifa bréf aftur og fái leið á tölvupósti og þ.h. Ég hugsa að við þurfum að taka bílpróf uppá nýtt eftir nokkur ár þá verða bílarnir svo tölvuvæddir.
En á öllum heimilum verður tölva, eins og í dag er sjónvarp á öllum heimilum (og ekki bara eitt sjónvarpstæki).
Hvað verður um framkvöllunarfyrirtækin þegar prentarar og stafrænar myndavélar verða á mörgum heimilum.
Ég veit ekki með gps staðsetninga tæki verða þau jafnvinsæl og síminn, örugglega á Íslandi..
Ég vona að allir skólar eignist fjarskiptabúnað svo að langveik börn geti fylgst með bekkjarsystkinum sínum í gegnum netið. Ég sé öll elliheimili og aðrar stofnafnir með tölvuver þar sem íbúar þess geta verið í samskiptum við umheiminn (afi minn 87 er að flytja á elliheimili á morgun og tilfinningarnar eru blendnar).
Þetta var svona brain storming og eins og Salvör sagði þá er allt uppkast sem kemur hér og síðan tökum við þetta saman í frambærilega grein.
Njótið dagsins. Ingigerður
Ég hef ekkert skrifað hér lengi en hef verið að skoða leiðabækurnar hjá samnemendum mínum. Ég er einnig að prófa fierworks og dreamweaver. Það gengur ágætlega að vinna með þessi fínu forrit. En þetta er alveg rosalega tímafrekt, það fljúga klukkutímarnir þegar ég sit við tölvuna, þó ég sé ekkert að gera neitt að viti. Þessir dagar fara semsagt mest í að kynnast forritunum. Ég man að Salvör talaði um að innihaldið skipti meira máli en útlitið það ætla ég að hafa í huga. Ég verð þó að viðurkenna að MX pakkinn er það spennandi að maður dettur svolítið í tækniatriðin að sjálfsögðu til að reyna að læra sem mest.
Kveðja Ingigerður

28. janúar 2003

Nú hélt ég að ég fengi taugaáfall, ég er eiginlega enn með hjartslátt. Ég skil þetta bloggsvæði ekki alveg. Ég þóttist hafa fundið heimasíðu sem ég gerði á bloggsvæðinu og alveg óháð þessu bloggi. Ég opnaði síðuna í Dream- og vitið ég fór að henda öllu draslinu í burtu af þvi að ég ætlaði að gera alveg nýja en þá var þetta tengt blogginu og ég henti öllu þar í burtu.
En sem betur fer gat ég opnað þetta í edit your blog: og vistað einhvern veginn þennan blessaða html kóða þannig að þetta reddaðist.
Kveðja ein fiktóð

27. janúar 2003

Ég sá að Árni var komin með teljara svo að ég skellti mér bara á einn líka, þetta var nú frekar einfalt. Alltaf að læra eitthvað nýtt.
Hvernig væri að setja upp spjall einhversstaðar þar sem að einhver tengsl myndist í hópnum. Það eru margir með spurningar og fólk er að lenda í vandræðum með ýmislegt. Ég sjálf er búin að fikta út í eitt og er núna hætt að fikta í þessu bloggi og farin að prófa önnur blogg sem verða æfingablogg.
Það var svolítið öðruvísi að vera á Webboardinu þá fékk maður feedback frá samnemendum og sá hve margir voru búnir að kíkja en núna er svolítið eins og maður sé alltaf að tala við sjálfan sig. En það er svo sem bara í góðu lagi svona virkar bloggið og er í raun svolítið skemmtilegt form.
Kveðja Ingigerður
Mig langar að bæta við kynninguna mína að í fyrravetur þá vorum við hjónin með einn bíl og þ.a.l. þurfti að skipuleggja tímann betur. Þá verslaði ég mat- og hreinlætisvörur á netinu og fékk sent heim. Þetta var alveg rosalega þægilegt og er ég með lista í netversluninni sem er minn innkaupalisti og vel ég síðan það sem þarf.
Það leiðinlegasta sem ég geri er að fara í matvörubúð, þetta hefur því hentað mér alveg rosalega vel.
Heimabankarnir eru einnig mikið notaðir á mínu heimili og það er ansi langt síðan ég hef farið í bankaútibú.
Ég er að hugsa um að fjárfesta í ASDL núna á næstu dögum, skiptir einhverju máli hvar maður verslar þetta, fer ég ekki bara í símaútibú?
Ætli ég þurfi símvirkja til að koma og redda þessu fyrir mig?
Ég hef heyrt að þetta sé algjör draumur, þ.e. að vera með ASDl.
Kveðja Ingigerður
P.S ég fékk aðgangsorð að íslendingabók.is í dag og þetta er mjög áhugavert fyrir þá sem hafa áhuga á ættfræði. Ég er búin að liggja yfir þessu í dag.
Nú var ég aldeilis köld að prófa að setja svona samkiptaforrit inn á bloggið, ég get þá allavega hent því út vegna þess að ég stakk þessu bara á milli kóða og reyndi að muna hvað var á undan og eftir.
Kveðja Ingigerður

26. janúar 2003

Hér er fyrsta vefrallýið mitt, það er hugsað fyrir nýnema í skólanum mínum sem þurfa að kynna sér heimasíðu skólans. Skólanámsskráin er á netinu og allar upplýsingar sem nemendur þurfa. Bókalisti er t.d. eingöngu á netinu og nemendur verða því að nýta sér netið.
rally

Forsíða fyrir námsvef

Jæja þá er Salvör búin að hjálpa mér við að koma blogginu í lag aftur.
Ég er búin að setja eitt vefrallý og það er hægt að skoða það frá vefsíðunni minni.

25. janúar 2003

Tölvunotkun Ingigerðar frá 1994-2003. Mín þekking og reynsla í notkun tölva spannar eingöngu níu ár. Ég eignaðist fyrstu tölvuna mína 1997 vorönn þá var ég á síðasta ári í Kennó. Ég var ekki með nettengingu en var með prentara og ritvinnsluforritið sem ég notaði mikið sem og ýmis kennsluforrit sem að ég setti inní heimilistölvuna.

1994 settist í tölvuver KHÍ fékk netfang hjá Ísmennt til að geta verið í tölvusamskiptum við fatlaðan vin minn sem að ég kynntist í starfi mínu á Reykjalundi. Þessi vinur minn (látinn) var mikið fatlaður en notaði tölvuna í samskiptum við umheiminn. Hjá honum sá ég fyrst að hægt væri að nota tölvur sem samskiptatæki og yrkið var mjög vinsælt hjá honum og var þetta mjög framandi fyrir mér.

Þegar ég hóf nám í KHÍ var ég staðráðin að reyna að fá sem mest út úr kennurum og kynnast þeirri tækni sem að var að riðja sér rúms. Við fengum fá námskeið sem tengdust UT en í stærðfræðivalinu sem ég sótti var Anna Kristjánsdóttir að vinna spennandi þætti. Það má segja að hún hafi kynnt möguleika nets og forrita í námi og kennslu vel fyrir okkur.

Fyrir tilstuðlan Önnu þá tókum við nokkrir kennaranemar úr stærðfræðivali að okkur að kenna í skóla Ísaks Jónssonar. Þar voru tölvutímar einu sinni á dag og við hlóðum inn forritum og þjálfuðum börnin í hinum ýmsu færniþáttum. Mjög skemmtilegt og lærdómsríkt.

Fyrst þegar ég settist við tölvu í kennó, þá hvarf músarbendillinn af skjánum og ég galaði yfir stofuna að tölvan væri biluð því músin var farin. Þá trítlaði einn bekkjarfélagi minn til mín og sannfærði mig um það að þetta væri nú bara eindemis vitleysa, maður þyrfti að hreyfa músina og þá kæmi bendillinnn inn aftur.

1996 fór ég til Finnlands í háskólann þar með Guðbjörgu Helgu, Reyni S. og Önnu Kristjánsd. Þar opnaðist aftur nýr heimur þar sem verið var að vinna með video - ráðstefnu. (Video -Conferencing) kynntist fullt af skemmtilegu fólki sem var komið langt í að nýta UT við kennslu.

Í lok náms míns í KHÍ skrifuðum ég og Soffía Jóna Bjarnadóttir lokaritgerð sem fjallaði um UT í tungumálakennslu. Það var alveg ágæt ritgerð og kom Torfi Hjartarson (held ég fari með rétt föðurnafn, skoða það á eftir) að sem leiðbeinandi.

1999 fjárfesti ég síðan í Leo tölvu hjá ACO og hefur hún reynst mér vel. Ég hef keypt mér nokkrar handbækur (bensínstöðvabækurnar) og lært heilmikið á þeim Prentara keyptum við líka1999 (hann er reyndar bilaður núna (jan 2003).
Ég hef aldrei farið á formlegt tölvunámskeið, er semsagt sjálfmenntuð' í þessu fagi. Ég æði áfram og er óhrædd við að skoða og prófa forrit. Ég þyrfti kannski að slaka að eins á því núna 25.jan 2003 er ég þvílíkt búin að lenda í veseni með heimasíðuna mína, ég get ekki tengst ismennt til að laga og breyta eða setja nýtt efni inn. Er búin að vera sallaróleg yfir þessu og í gærkvöldi þegar ég hélt ég væri búin að finna út hvað ég gerði rangt þá virkaði ekki neitt og ég varð smá svekkt yfir því.

Ég er ekki með sítengingu en það stendur til bóta því að það er á tali hjá mér öll kvöld vegna línunnar.

Hef kennt á námskeiðum fyrir kennara í bæjarfélaginu mínu. Það var hugsað sem kynning á kennsluforritum og tölvuumhverfinu svo að kennarar gætu farið að nýta sér tölvurnar sem voru þá nokkrar eiginlega bara örfáar í skólanum.

Sá um tölvukost Gagnfræðaskólans í Mosfellsbæ 1997-2000. Kenndi fingrasetningu í 7-9.bekk, Word og Excel og html í 10.bekk. Reyndi að læða að forritum og kynningu á netinu eins og mögulegt var. Var með börn af sérnámsbrautum í sérstöku programmi í tölvuverinu.

2001 byrjaði að kenna töl 102 í BHS (sem viðbót við stærðfræðina) líkaði ágætlega og kenni núna UTN 102 og UTN 173 er semsagt með fjóra hópa í tölvuveri eða 15 kennslustundir á viku.

Í stærðfræði hef ég reynt að miðla nemendum mínum á heimasíður sem að tengjast náminu. Sumum nemendum hef ég lofað að fara í tölvuna í skólastofunni til að prófa sig áfram.

Ég vinn allt mitt kennsluefni í tölvunni þá aðallega Word og Power Point. Nú er ég að vista gömul wordskjöl sem html skjöl svo ég geti sett það á netið.

Ég er mikið í tölvusamskiptum við nemendur, foreldra og aðra kennara. Finnst það vera mjög þægileg og virk leið fyrir samskipti á þessum nótum.

Umsjónarnemendur mínur eru 17-18.ára á öðru ári á Náttúrufræðibraut, við útbjuggum bloggsvæði fyrir hópinn þar sem ég set inn skilaboð til þeirra um hver eigi að mæta í umsjóna og við hvern ég vill tala í það og það skipti og einnig áríðandi skilaboð. Þetta er nýtilkomið og vitum við ekki hvernig þetta mun virka. En nemendum mínum leist vel á að prófa að fá upplýsingar á þennan máta að viðbættum viðtalstímum sem ég hef.
Framtíðin... bæti því við síðar...
Bless bless