22. júní 2007

Fyrirlestur Daniels Tammets var í dag

Ég fór á fyrirlestur Daniels Tammets í dag. Fyrirlestrinum seinkaði um 45 mín vegna smá tækniörðugleika með hljóðkerfi salarins. Það var mjög fjölmennt á fyrirlestrinum og þurfti að færa okkur í stærri sal. Ég hef lesið einhversstaðar að þeir sem eru með Asperger þurfa að hafa allt í föstum skorðum og að tímasetningar þurfi að standast. En þessi seinkun hafði greinilega ekki áhrif á fyrirlesarann. Það var mjög gaman að hlusta á hann og heyra hvernig hann hefur náð að brjótast út úr einhverfunni og hvernig hann sér liti í kringum orð og tölur, samskynjun, þetta er svo magnað. Ég ætla að lesa bókina hans Born on a blue day núna í sumar, ásamt öllum siðfræði bókunum sem ég er búin að ná mér í.
Ólafur Stefánsson var með mjög skemmtileg lokaorð sem áttu að vera inngangur en þetta snerist eitthvað við. Hann var akkúrat með það sem að einhverjir kennarar hafa verið að að nota við kennslu sérstaklega þeir nýútskrifuðu. Hugtakakort, með orðum og myndum og táknum. Margir nemendur eru sérstaklega færir að útbúa svona kort. Ég sjálf bæði skrifa og teikna svo illa að ég nýt þess ekki að gera svona kort. Hef allavega ekki gert það hingað til en hver veit. Þetta er svo brilliant hugmynd.