
Jólahátíðin gengin í garð, allt mjög hefðbundið og ljúft. Jólasnjórinn setur fallegan svip á bæinn og er mjög jólalegt um að litast.

Á aðfangadag fór Bjarni í bæinn með krakkana að útdeila pökkum og kasta kveðju á fólkið sitt. Við vorum síðan öll mætt til mömmu og pabba ásamt Siggu sys rétt fyrir klukkan sex. Mamma var með humarsúpu og hamborgarahrygg og í eftirrétt var möndlugrautur með hindberjasósu. Pakkaflóðið í stofunni var þvílíkt og var Sigurbergur í því hlutverki að lesa á pakkana ásamt afa sínum.

Við fórum til Reykjavíkur um tíu leytið og vorum með tengdafjölskyldunni fram yfir miðnætti.
Á jóladag var messa kl. tvö og jólaboð hér heima kl. þrjú. Mamma og pabbi voru með boðið þetta árið fyrir Heiðartúnsfjölskylduna og ákváðum við að hafa það hér í Lágmóanum. Við vorum 43 í boðinu þetta árið, það eru svo margir í útlöndum þessi jól. Jólaboðið tókst mjög vel við dönsuðum öll í kringum stóra jólatréð því það var svo mikið pláss í stofunni. Svo kom jólasveinn í heimsókn og gaf krökkunum nammi poka. Síðustu gestirnir fóru þegar klukkan var langt gengin í tíu.




Annar í jólum var hefðbundinn, það var farið í jólagöngu. Þetta árið var gengið frá Fitjum í Njarðvík að Bláa Lóninu og síðan fór allur hópurinn í Lónið. Við vorum 15 sem gengum þessi jól. Veðrið var frábært eins og alltaf á annan í jólum. Dagurinn endaði svo í jólaboði í Reykjavík og við komum heim seint í gær.




Í dag ætlum við að borða soðna ýsu og kartöflur sem verður góð tilbreyting frá öllu kjötátinu.
Strax erum við farin að telja niður dagana til Gamlárskvölds.


Helgin byrjaði á tónleikaferð með mömmu, pabba og Siggu systir. Fórum á afmælistónleika í íþróttahúsinu í Keflavík. Þar var Sinfóníuhljómsveit Íslands að spila, ásamt eldri lúðrasveit tónlistarskólans, Karlakór Keflaíkur söng og einnig Davíð Ólafsson sem var stórkostlegur.


























Erfiðlega gekk að fá leigubíl heim og fjölskyldumeðlimir urðu voða tens yfir því ástandi. En það hafðist að lokum og við komumst á hótelið fyrir rest.




